Viðskipti innlent

Vinsælustu fyrirtækin verðlaunuð

Ölgerð Egils Skallagrímssonar, Hitaveita Suðurnesja, Sparisjóðirnir og Olís eru vinsælustu fyrirtækin á Íslandi samkvæmt Íslensku ánægjuvoginni sem kynnt var í dag. Veittar voru viðurkenningar í fjórum flokkum þar sem Ölgerðin Egill Skallagrímsson hlaut viðurkenningu í flokki framleiðslufyrirtækja. Þetta er í fjórða sinn sem Ölgerðin er í fyrsta sæti í þessum flokki. Ölgerðin hlaut einnig sérstök verðlaun fyrir að ná bestum árangri þeirra fyrirtækja sem mæld voru. Sparisjóðirnir voru í fyrsta sæti í flokki fjármálafyrirtækja og hljóta þeir þessa viðurkenningu sjötta árið í röð. Í flokki veitufyrirtækja var Hitaveita Suðurnesja í fyrsta sæti og er það í þriðja sinn sem fyrirtækið hlýtur þessa viðurkenningu. Olís varð í fyrsta sæti í flokki smásölufyrirtækja. Alls tóku 25 fyrirtæki þátt í Íslensku ánægjuvoginni. Að Íslensku ánægjuvoginni standa Samtök Iðnaðarins, Stjórnvísi og IMG Gallup, en þetta er í sjötta sinn sem ánægja viðskiptavina fyrirtækja er mæld. Úrtakið var um 8200 manns úr þjóðskrá á aldrinum 15 til 75 ára.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×