Viðskipti innlent

Bakkavör stærst í heimi

Bakkavör er orðin stærsti framleiðandi ferskrar, tilbúinnar matvöru í heiminum með kaupum á breska fyrirtækinu Geest, að sögn forstjóra fyrirtækisins. Alls greiðir Bakkavör 70 milljarða króna fyrir Geest en Barcleys-bankinn lánar 58 milljarða sem forstjórinn segir hæsta lán sem íslenskt fyrirtæki hefur fengið. Bakkavör var fyrir stærsti hluthafinn í Geest en þetta er annað fyrirtækið með því fjölskyldunafni sem íslenskt fyrirtæki kaupir á nokkrum dögum því fyrir stuttu keyptu Samskip Geest-skipafélagið. Lýður Guðmundsson, forstjóri Bakkavarar, segir að með þessum kaupum sé Bakkavör orðin stærsta fyrirtækið í Kauphöll Íslands, og ekki bara það, heldur stærst á sviði ferskrar, tilbúinnar matvöru í heiminum. Með kaupunum bætast m.a. pítsur, brauð, pasta og salat við framleiðslulínu Bakkavarar. Kaupverðið er tæpir 58 milljarðar króna og er fjármagnað einkum af Barcleys-bankanum en einnig KB-banka. Heildarlánveitingin er hátt í 70 milljarðar króna.- Hluthöfum og fleirum voru kynnt kaupin í dag. Að sögn Lýðs var rekstur Geest góður fyrir og með þessari sameiningu segir hann tvö bestu fyrirtækin hafa sameinast. Sameinað fyrirtæki rekur 42 verksmiðjur í fimm löndum með um 13.000 starfsmenn. Og þeir eru ekki hættir. Lýður segir þá horfa keika til framtíðar og ætli sér að standa við stórar yfirlýsingar stjórnarformannsins á aðalfundi fyrirtækisins í fyrra.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×