Innlent

Skyndihúsleit á veitingastöðum

Fíkniefnalögreglan og fulltrúar skattrannsóknarstjóra gerðu fyrirvaralausa húsleit á vel á annan tug vínveitingastaða á höfuðborgarsvæðinu í gær og fyrradag. Almennir lögregluþjónar tóku þátt í aðgerðunum og voru embættismönnum skattrannsóknarstjóra til halds og trausts, bæði til að koma í veg fyrir hugsanlega mótspyrnu og til að tryggja að haldlagning gagna gæti farið fram. Grunur leikur á fíkniefnadreifingu sums staðar, vændisstarfsemi jafnvel og stórfelldum skattsvikum. Nánast allir starfsmenn skattrannsóknarstjóra tóku þátt í þessari umfangsmestu aðgerð embættisins síðan húsleit var gerð hjá olíufélögunum. Rannsóknin gekk að sögn Skúla Eggerts Þórðarsonar skattrannsóknarstjóra vel. Þarna hafi verið um að ræða átak gegn svartri starfsemi í þessari grein og grunsamlegustu aðilarnir hafi verið valdir. Skúli segir of snemmt að segja til um hvort aðgerðirnar hafi skilað árangri. Kynna þurfi forráðamönnum veitingastaðanna niðurstöðuna fyrst en skattrannsóknarstjóri hafi haft röstuddan grun um undanskot og duldar launagreiðslur. Aðspurður hvort einhverjum veitingahúsum verði lokað í kjölfarið segir Skúli að ekkert sé hægt að segja um það á þessari stundu. Málið sé til meðferðar eins og er.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×