Innlent

Sagði Hákon ekki hafa sýnt iðrun

Vitnaleiðslur standa yfir í réttarhöldunum yfir Hákoni Eydal vegna morðsins á Sri Ramawhati í fyrrasumar. Fimm vitni komu fyrir dóminn, þar á meðal geðlæknir sem fullyrti að Hákon hefði enga iðrun sýnt eftir verknaðinn og að honum hefði ekki létt eftir að hafa viðurkennt hann. Fyrstur kom fyrir dóminn lögreglumaður sem rannsakaði blóðferla í húsinu þar sem Sri Rahmawati var ráðinn bani. Hann sagði greinilegt að Sri hefði fengið þrjú til fimm högg eftir að hún féll í gólfið og að höggin hefðu verið kraftmikil. Næstur kom fyrir dóminn faðir Hákonar en hann hefur samkvæmt lögum rétt til þess að sleppa því að svara spurningum og kaus að nýta sér þann rétt. Þá kom fyrir dóminn kona sem er nágranni Hákonar. Hún var úti að ganga með hundinn sinn í hádeginu sunnudaginn 4. júlí og bar fyrir dómi að hafa séð Hákon ganga út úr húsinu með risastóran poka á öxlinni og að þar hefði hún séð móta fyrir fótlegg og rasskinn og sagðist hún þegar hafa gert sér grein fyrir því að hún hefði orðið vitni að einhverju misjöfnu. Þá kom réttarmeinarfræðingur fyrir réttinn og staðhæfði út frá áverkum að Sri Rahmawati hefði borið vinstri hönd fyrir höfuð sér en Hákon sagði í morgun það hefði hún ekki gert. Fimmta vitnið var geðlæknir sem rannsakaði Hákon. Aðalniðurstaða hans var sú að Hákon væri sakhæfur en að hann hefði ákveðna persónuleikabresti sem hann ætti sjálfur erfitt með að sjá. Hann fullyrti að hann merkti enga iðrun hjá Hákoni og að honum hefði ekki verið létt eftir að hann viðurkenndi verknaðinn. Ákærandi og verjandi flytja nú mál sitt en málið verður síðan lagt í dóm.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×