Innlent

Framtíð Varnarliðsins rædd

Embættismannaviðræður um framtíð Varnarliðsins hefjast á næstunni og gerir Davíð Oddsson utanríkisráðherra ráð fyrir að niðurstaða fáist á árinu. Hann og Condoleezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, ræddust við í fyrradag um framhald viðræðna. Davíð Oddsson, þáverandi forsætisráðherra, fundaði síðastliðið sumar í Hvíta húsinu með Georg Bush Bandaríkjaforseta um varnarsamstarf þjóðanna og fyrr í vetur fundaði hann með Colin Powell utanríkisráðherra um málið. Nú hefur Condoleeza Rice tekið við af Powell en þau Davíð ræddust við í síma í fyrradag um hvernig framhaldi viðræðna yrði háttað. Davíð vonast til að það skýrist innan tveggja vikna. Hann kvaðst ekki heyra betur á Rice en að hún væri mjög opin fyrir því að viðræðurnar kæmust á hið fyrsta. Viðræðurnar verða í höndum embættismanna þjóðanna en niðurstaðan mun hafa áhrif á atvinnumál á Suðurnesjum og fjárhag íslenska ríkisins þar sem rætt verður um varnarviðbúnað á Keflavíkurflugvelli og aukna þátttöku Íslands í þeim kostnaði. Davíð finnst þær viðræður sem hann hafi átt við Bush og Powell hafi verið skref í rétta átt, þótt ekkert sé í hendi. Hann vonar að óvissunni fari að ljúka því „eins og við höfum sagt við Bandaríkjamenn fara öryggi og óvissa ekki vel saman,“ segir Davíð.  



Fleiri fréttir

Sjá meira


×