Innlent

Mánaðarfangelsi fyrir manndráp

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt tæplega tvítugan mann í 30 daga fangelsi fyrir manndráp af gáleysi, en hann bakkaði bifreið sinni á tæplega níræða konu í fyrra með þeim afleiðingum að hún lést. Maðurinn var ákværður fyrir hegningar- og umferðarlagabrot með því að hafa í maí á síðasta ári, á leið af bílastæði við Spítalastíg í Reykjavík, ekið bifreið sinni án nægjanlegrar aðgæslu og tillitssemi aftur á bak út á gangstétt með þeim afleiðingum að öldruð kona, sem var gangandi vegfarandi, varð fyrir bifreiðinni. Konan féll í götuna og hlaut við það svo mikla höfuðáverka að hún lést nokkrum klukkustundum síðar. Héraðsdómur Reykjavíkur taldi hafið yfir skynsamlegan vafa að maðurinn hefði bakkað bifreiðinni á konuna með fyrrgreindum afleiðingum. Dómurinn benti á að slysið hefði orðið á stað þar sem ætíð mætti búast við gangandi vegfarendum en konan hefði verið lengi að komast leiðar sinnar fram hjá bifreið mannsins. Í niðurstöðu héraðsdóms segir að hefði ákærði sýnt nægjanlega aðgæslu og tillitssemi með því að líta í baksýnis- og hliðarspegla hefði honum ekki getað dulist að konan gekk hægt fram hjá. Sannað þótti hins vegar að ákærði hefði bakkað án aðgæslu og tillitssemi. Þar sem hann hafði aldrei áður gerst sekur um refsiverða háttsemi þótti hæfileg refsins 30 daga fangelsi, skilorðsbundið í eitt ár. Maðurinn var enn fremur sviptur ökurétti í eitt ár.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×