Innlent

Haldið sofandi í öndunarvél

Karlmaður á þrítugsaldri liggur á gjörgæsludeild Landspítalans í Fossvogi eftir að hafa keyrt út af í Skagafirði í morgun með þeim afleiðingum að hann kastaðist út úr bifreiðinni. Hann var fluttur með sjúkrabifreið til Sauðárkróks þangað sem þyrla Landhelgisgæslunnar sótti manninn og flaug með hann til Reykjavíkur. Maðurinn hlaut alvarlega höfuðáverka og fór strax í aðgerð. Honum er nú haldið sofandi í öndunarvél. Þetta var þriðja útkall þyrlunnar frá því í gærkvöld. Rúmlega hálf sex í morgun hringdi Neyðarlínan í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar og tilkynnti um slys um borð í bátnum Baldri Karlssyni ÁR-06. Stjórnstöð var gefið samband við bátinn sem þá var staddur 30 sjómílur út af Hornafirði. Einn skipverja hafði handleggsbrotnað og var talið að um opið beinbrot væri að ræða. Áhöfn TF-LÍF var þegar kölluð út en þegar hún var að leggja af stað hringdi Neyðarlínan aftur í stjórnstöðina og tilkynnti um bílslysið í Skagafirði. Þyrlan fór í loftið klukkan 6.30 og var ákveðið, þegar hún var hálfnuð að bátnum, að snúa henni til Skagafjarðar. Skipstjórinn á Baldri Karlssyni sigldi með slasaða skipverjann til hafnar og var hann fluttur á sjúkrahús. Í gærkvöldi var þyrluáhöfn Landhelgisgæslunnar einnig kölluð út en þá var óttast um bát sem hafði tekið niðri við Hópsnes. Útkallið var síðan afturkallað stuttu síðar er báturinn komst á flot á ný.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×