Innlent

Mesta magn LSD sem fundist hefur

"Fjögur þúsund skammtar eru ákaflega mikið magn efna og gætu verið í sölu mánuðum saman ef því er að skipta," segir Ásgeir Karlsson, yfirmaður fíkniefnadeildar hjá lögreglunni í Reykjavík. Við leit lögreglu í farangri Íslendings sem handtekinn var í Hollandi í haust fundust fjögur þúsund skammtar af fíkniefninu LSD en það er mesta magn sem hald hefur verið lagt á hérlendis. Var farangur mannsins eftir hjá hollensku lögreglunni þegar hann var framseldur til Íslands eftir að hafa verið handtekinn með talsvert magn fíkniefna og ekki sendur til landsins fyrr en nýlega. Viðkomandi er einn fimm sakborninga sem til rannsóknar eru vegna smygls á amfetamíni, kókaíni og LSD-skömmtum með flutningaskipinu Dettifossi en rannsókn þess máls er á lokastigi. Við skoðun lögregluyfirvalda hérlendis á farangri mannsins fundust LSD-skammtarnir fjögur þúsund en sakborningurinn hefur ekki viðurkennt að hafa ætlað að smygla þeim hingað til lands og er málið áfram í rannsókn. Spurður um hvort hollenska lögreglan sé ekki starfi sínu vaxin að hafa ekki fundið efnin í tösku mannsins segir Ásgeir að líklegra sé að hún hafi ekki verið skoðuð. "Efnin voru ekki einu sinni falin í töskunni og því þykir mér líklegt að þeir hafi sent hana hingað til lands án rannsóknar."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×