Innlent

Fékk bætur fyrir gæsluvarðhald

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi íslenska ríkið í morgun til að greiða karlmanni á fertugsaldri 500 þúsund krónur í bætur fyrir ólögmætt gæsluvarðhald sem hann sat í. Maðurinn var handtekinn í september 2003 í tengslum við fíkniefnasmygl með einu skipa Samskipa. Tveir bræður voru handteknir og síðar dæmdir fyrir smygl á rúmlega einu kílói af hassi og tæpu kílói af amfetamíni sem reyndist síðar vera koffín. Maðurinn þekkti bræðurna, hafði umræddan dag heimsótt þá og annar bræðranna síðan heimsótt hann á vinnustað í Sundahöfn og síðan sótt fíkniefnin um borð í skipið í framhaldinu. Maðurinn var úrskurðaður í gæsluvarðhald í tvær vikur. Á varðhaldstímanum var hann í einangrun auk þess sem hann sætti heimsóknarbanni, bréfaskoðun og síma- og fjölmiðlabanni. Við yfirheyrslur yfir bræðrunum kom fram hjá öðrum þeirra að manninum hefði mátt vera ljóst að eitthvað ólöglegt stæði til en hjá hinum að maðurinn tengdist ekki fíkniefnasmyglinu á nokkurn hátt. Í niðurstöðu héraðsdóms segir að rökrétt hafi verið af lögreglu að gruna manninn um að veita bræðrunum liðveislu en eftir yfirheyrslu yfir þeim hafi ekki verið ástæða til að krefjast gæsluvarðhalds. Dómurinn segir að varðhald sé ekki til skemmtunar og þyki illt afspurnar hjá mörgum. Íslenska ríkið var því dæmt til að greiða manninum 500 þúsund krónur í bætur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×