Innlent

Sektuð um 60,5 milljónir

Tryggingafélögin voru í gær sektuð um 60,5 milljónir af samkeppnisráði vegna ólöglegs verðsamráðs. Tryggingamiðstöðin hefur fallist á að greiða 18,5 milljónir í sekt og VÍS hefur fallist á að greiða 15 milljónir. Sjóvá-Almennar tryggingar eru sektuð um 27 milljónir, en tryggingafélagið hefur ákveðið að áfrýja þeirri niðurstöðu til áfrýjunarnefndar samkeppnismála og eftir atvikum til dómstóla. Það var niðurstaða samkeppnisráðs að sekt Sjóvá-Almennra skyldi vera hærri en sekt hinna tryggingafélaganna, þar sem VÍS og TM óskuðu eftir sátt og aðstoðuðu samkeppnisráð við að upplýsa brotin. Í tilkynningu frá Sjóvá-Almennum segir að fyrirtækið hafi ekki haft fjárhagslegan ávinning af samstarfinu og hafi samið um sjálfstætt verð. Samkeppnisráð segir að verðsamráðið hafi falist í því að félögin gerðu sameiginlega samanburð á Cabas-tjónamatskerfi áður en það var tekið í notkun árið 2002. Samkeppnisráð telur að með því hafi falist samráð um að meta hækkunarþörf á tímagjaldi verkstæða. Í kjölfarið er talið að félögin hafi komið sér saman um viðmiðunarverð sem þau ætluðu að nota í samningaviðræðum við bílaverkstæði. Þá er talið að félögin hafi haft samráð um kaupverð á viðgerðarþjónustu af P. Samúelssyni ehf. sem rekur eitt stærsta bifreiðaverkstæði landsins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×