Innlent

Með falsað vegabréf

Rúmlega þrítugur útlendingur sótti um pólitískt hæli þegar hann kom úr ferjunni Norrænu á þriðjudagsmorgun. Við komuna til landsins hafði hann framvísað ungversku vegabréfi sem grunur lék á að væri falsað. Hann viðurkenndi að svo væri og óskaði hælis hér á landi sem pólitískur flóttamaður. Í framhaldinu var Útlendingastofnun gert viðvart og fulltrúi Rauða krossins kvaddur á vettvang til að vera við skýrslutökur. Hjá Útlendingastofnun fengust þær upplýsingar að maðurinn væri með hælisumsókn til meðferðar í Bretlandi og hefði ferðast til Danmerkur og Færeyja með Norrænu. Hann var fluttur til Egilsstaða og gisti á lögreglustöðinni aðfaranótt miðvikudags. Á miðvikudag var tekin af honum skýrsla og í framhaldinu ákveðið að vísa máli hans til Útlendingastofnunar og kom hann flugleiðis til Reykjavíkur síðdegis í gær. Ekki náðist í forstjóra né forstöðumann Útlendingastofnunar vegna málsins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×