Innlent

Birtingin gæti verið lögbrot

Enda þótt sakborningum og verjendum sé heimilt að ráðstafa að vild málsgögnum úr dómsmálum getur samt verið að opinber birting þeirra stangist á við lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Þetta segir lögfræðingur hjá Persónuvernd sem ítrekar þó að málið sé ekki til skoðunar hjá stofnuninni. Talsverð umræða hefur spunnist um birtingu myndbands úr löggæslumyndavél sem sýnir banvæna líkamsárás í Hafnarstræti vorið 2002. Myndbandið mátti til skamms tíma finna á netinu en um helgina var það sýnt í fréttatíma Stöðvar 2 og myndbrot birt í DV fyrir nokkrum dögum. Ekki er vitað hver setti myndirnar upphaflega á veraldarvefinn en þær voru notaðar sem sönnunargagn í réttarhaldinu yfir þeim sem dæmdir voru fyrir árásina. Lögreglan hefur þvertekið fyrir að bera ábyrgð á birtingunni enda hafi hún enga hagsmuni af slíku. Samkvæmt lögum eiga verjendur og sakborningar rétt á afritum af öllum málsgögnum og því hallast sumir að því að þaðan hafi myndirnar borist á netið. Fram hefur komið í fjölmiðlum að annar hinna dæmdu er mjög ósáttur við dóminn og telur hann að myndbandið sýni að hann hafi verið dæmdur of hart. Almennt er litið svo á að endurrituð málsgögn sem verjendur og sakborningar fá við réttarhaldið séu þeirra eign og þeir hafi því fullan ráðstöfunarrétt á þeim. Ætlast er þó til að óviðkomandi komist ekki yfir gögnin á meðan ekki hefur verið dæmt í málinu. "En eftir að máli er lokið þá veit ég ekki til þess að neinar leyndarreglur séu yfir þessum málsgögnum. Þetta var opið réttarhald og gögnin voru öllum opin og engir skilmálar væntanlega settir lögmönnum eða sakborningum um að þeir ættu að setja þessi gögn í eitthvert bankahólf," segir Sveinn Andri Sveinsson hæstaréttarlögmaður. Hann undirstrikar þó að hann hafi enga vitneskju um hvernig myndbandið komst í dreifingu enda var hann ekki verjandi hinna dæmdu. Málefnaleg notkun? Það sem gerir þetta mál sérstaklega athyglisvert er að myndirnar sem um ræðir koma upphaflega frá lögreglu en um vinnslu slíks myndefnis gilda mjög strangar reglur. Persónuvernd hefur málið ekki til umfjöllunar þar sem engin kvörtun hefur borist en að sögn Björns Geirssonar, lögfræðings hjá stofnuninni, er ekki útilokað að það verði gert þótt engin ákvörðun hafi verið tekin þar um. Björn segir óneitanlega skjóta skökku við að jafn viðkvæmar upplýsingar og þessar birtist á veraldarvefnum þótt vitaskuld verði ekki undan því vikist að afhenda verjendum og sakborningum málsgögn. "Aðgangur sakborninga að öllum gögnum sem ákæruvaldið byggir á, þar með taldar upptökur, er ein af meginreglum íslensks réttarfars. Það er hins vegar spurning með tilliti til persónuverndarsjónarmiða hvort takmarka mætti umgengni um gögn á borð við þessi við aðgang í stað afhendingar." Stjórnarskráin ver tjáningarfrelsið en því fylgir líka ábyrgð. Björn segir í þessu sambandi skipta máli að birting myndefnis á borð við það sem hér um ræðir feli í sér vinnslu persónuupplýsinga. "Í lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga eru markaðar ákveðnar meginreglur, meðal annars að slíkar upplýsingar skulu unnar með sanngjörnum og málefnalegum hætti. Önnur meginregla laganna segir að vinnsla persónuupplýsinga í öðrum tilgangi og ósamrýmanlegum þeim upphaflega sé óheimil. Þarna virðist verið að vinna með persónuupplýsingar í öðrum tilgangi en þeim upprunalega, það er löggæsluhagsmuna." Birtingin á netinu virðist þannig brjóta í bága við lög um persónuvernd. Við þetta bætist svo spurningin um hvort tjáningarfrelsið vegi hér þyngra en friðhelgi einkalífsins. Mörkin þarna á milli eru alls ekki skýr og verða dómstólar að skera úr um þau. Ættingjar fórnarlambsins harma í það minnsta birtinguna mjög og má telja öruggt að þeim finnist hún ómálefnaleg.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×