Innlent

Ákærður fyrir bílbrennur

Ríkissaksóknari hefur ákært 22 ára gamlan mann fyrir að kveikja í bílum og að hafa með því stofnað lífi níu manna í hættu. Maðurinn er einnig ákærður fyrir vopnalagabrot og akstur undir áhrifum deyfandi lyfja. Maðurinn er sakaður um að hafa hellt bensíni yfir og kveikt í bíl sem stóð á bílaplani við fjölbýlishús í Lækjargötu í Hafnarfirði í byrjun september síðastliðinn. Eldurinn blossaði upp og breiddist yfir í bíla sem stóðu sitt hvoru megin við þann sem kveikt var í. Eldurinn barst í gluggakistu á jarðhæð fjölbýlishússins og brunnu og sprungu rúður bæði á jarðhæðinni og annari hæð hússins. Eldsupptök voru aðeins um einum og hálfum til tveimur metrum frá húsinu og þykir maðurinn hafa með verknaði sínum stofnað lífi níu sofandi íbúum hússins í hættu. Eldurinn var fljótlega uppgötvaður og var slökktur af slökkviliði og má þakka því að ekki fór verr. Maðurinn er líka sakaður um að hafa sömu nótt hellt bensíni yfir og kveikt í öðrum bíl skammt frá fyrri brunastaðnum. Bíllinn og grindverk sem hann stóð við skemmdust í eldinum. Lögregla stöðvaði akstur mannsins í Hafnarfirði í júní í fyrra og reyndist hann aka án gildra ökuréttinda og undir áhrifum deyfandi lyfja. Eins fannst hnífur með fimmtán sentímetra löngu blaði í bílnum. Við þingfestingu málsins í Héraðsdómi Reykjaness í gær tók maðurinn sér frest til að tjá sig um efni ákærunnar sem hann var þá að sjá í fyrsta skipi. Krafist er að hann verði dæmdur til refsingar og sviptur ökuréttindum. Eigendur þriggja bíla sem urðu eldinum að bráð hafa lagt fram bótakröfu á hendur manninum samtals að upphæð rúmrar einnar milljónar króna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×