Innlent

Götueftirlit komið til að vera

32 fíkniefnamál hafa komið upp í götueftirliti fíkniefnalögreglunnar í Reykjavík frá 1. febrúar og hafa 35 verið kærðir í kjölfarið. Ásgeir Karlsson, yfirmaður fíkniefnadeildarinnar, segir götueftirlitið komið til að vera. Það eigi að hindra að fólk selji og dreifi fíkniefnum á götunni óáreitt. Tekin voru 457 grömm af hassi, 49 grömm af amfetamíni, 34 grömm af maríjúana, ellefu grömm af kókaíni og einn skammtur af LSD. Auk þess lagði lögreglan hald á 35 steratöflur. Fíkniefnin fundust þegar fylgst var með þekktum mönnum úr fíkniefnaheiminum, við eftirlit á skemmtistöðum og í húsleitum. Gerðar voru þrettán leitir í bílum og átta húsleitir. Í götueftirlitinu voru fimm menn úr fíkniefnadeildinni, þjálfaðir til að fylgjast með sölu og dreifingu. Ásgeir segir þetta ekki hafa verið sérstakt átak heldur verði vinnunni haldið áfram af fullum krafti því hún hafi skilað verulegum árangri.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×