Innlent

Báturinn gjöreyðilagðist í eldinum

Slökkvistarfi um borð í fiskiskipinu Val GK í Sandgerðishöfn lauk ekki fyrr en klukkan hálf þrjú í nótt. Talið er að báturinn sé gjörónýtur og að tjónið nemi tugum milljóna króna. Eldsins varð vart um klukkan átta í gærkvöldi þegar reykur sást stíga upp frá bátnum sem var mannlaus og þegar slökkvilið kom á vettvang logaði eldurinn neðan þilja. Slökkvistarfið var hættulegt þar sem sprengihætta getur verið ofan í skipum og súrefnisskortur er viðvarandi. Engan sakaði þó við slökkvistarfið. Valur er 170 tonna yfirbyggður stálbátur sem verið hefur á tog- eða netaveiðum upp á síðkastið. Einhverjar skemmdir urðu líka á tréverki bryggjunnar sem Valur lá við. Þá eyðilagðist gamalt timburhús við Aðalgötu í Ólafsfirði í bruna seint í gærkvöldi. Það var mannlaust þegar eldurinn kom upp en iðnaðarmenn höfðu verið að vinnu í því fyrr um daginn. Talið er að kviknað hafi í út frá rafmagni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×