Innlent

Átta með fíkniefni á Akureyri

Átta menn innan við tvítugt voru teknir með fíkniefni í fórum sínum á Akureyri á laugardag. Fjórir voru handteknir um kvöldmatarleytið við miðbæ Akureyrar. Þeir vöktu grunsemdir lögreglu og voru með nokkur grömm af hassi og amfetamíni ásamt tækjum og tólum til neyslunnar þegar að var gáð. Lögreglan yfirheyrði þá og var þeim sleppt að því loknu. Talið er að fíkniefnin hafi verið til einkanota og telst málið upplýst, samkvæmt Gunnari Jóhannssyni varðstjóra lögreglunnar á Akureyri. Lögreglan tók annan fjögurra manna hóp í kyrrstæðum bíl í útjaðri bæjarins laust eftir miðnætti. Hópurinn reykti tóbaksblandað hass sem lögreglan náði auk tóla til neyslunnar. Þeir voru látnir lausir að loknum skýrslutökum. Gunnar merkir aukna fíkniefnanotkun í bænum. Mjög margir virðist hafa fíkniefni undir höndum og noti þau. Báðir hóparnir eigi von á refsingu vegna brotanna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×