Innlent

Gripinn með 35 kíló af hassi

Íslendingur á fertugsaldri er í haldi dönsku lögreglunnar vegna tilraunar til að smygla 35 kílóum af hassi. Hann situr í gæsluvarðhaldi ytra. Íslendingurinn, karlmaður fæddur árið 1968, kom samkvæmt heimildum Stöðvar 2 frá Hollandi. Á fimmtudag var hann stöðvaður á landamærum Þýskalands og Danmerkur og fundust þá 35 kíló af hassi í farangursgeymslu bifreiðar hans. Talsmaður dönsku lögreglunnar í Padborg nærri landamærum Þýskalands staðfesti að Íslendingurinn hefði verið handtekinn og að efnið hefði fundist við venjulega leit. Hann sæti í gæsluvarðhaldi en lögregla gat ekki staðfest hve lengi það yrði. Málið telst stórt, einnig á danskan mælikvarða, en það er nú í rannsókn hjá dönsku lögreglunni. Maðurinn var einn á ferð en ekki er vitað um hvert för hans var heitið, til dæmis hvort ætlunin var að flytja fíkniefnin til Danmerkur eða Íslands.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×