Innlent

Játaði fimm vopnuð rán

35 ára gamall maður hefur játað að hafa framið fimm vopnuð rán í Reykjavík á fjórum dögum. Hann var nú síðdegis úrskurðaður í vikulangt gæsluvarðhald.  Síðasta ránið var framið síðdegis í gær í leikfangaverslunni Leikbæ í Mjódd. Hálftíma áður hafði samskonar rán verið framið í bókaverslun í Grafarvogi. Lýsingar bentu til þess að sami maður væri á ferð en hann hafði ruðst inn í búðirnar með grímu á höfði og vopnaður riffli, hótað starfsfólki og hrifsað reiðufé úr afgreiðslukössum. Í gærkvöldi sá lögreglan grunsamlega mann við verslanamiðstöðina Suðurver. Við leit í bíl hans fundust hlutir sem bendluðu hann sterklega við glæpina, og var hann handtekinn í kjölfarið. Þar voru meðal annars riffill, eldhúshnífur og svört gríma. Við athugun reyndist þetta vera loftriffill en grímuna hafði maðurinn gert með því að klippa göt á húfu. Einnig fannst klaufhamar sem maðurinn er talinn hafa notað í ránsferðum sínum. Þá fundust 60 til 70 þúsund krónur í reiðufé á manninum og reyndist þar vera kominn hluti af ránsfengnum. Við yfirheyrslur hefur maðurinn nú játað fimm rán á síðustu fjórum dögum og kveðst hann hafa verið einn að verki. Hann á ekki sakaferil að baki svo vitað sé. Að kröfu lögreglunnar í Reykjavík var maðurinn nú síðdegis úrskurðaður í gæsluvarðhald til 18. febrúar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×