Innlent

Fleiri gætu tengst málinu

Lögregla útilokar ekki að fleiri menn tengist umfangsmiklu amfetamínssmygli hingað til lands. Tveir menn eru í haldi lögreglu vegna smygls á fjórum kílóum af amfetamíni. Annar þeirra smyglaði efninu til landsins en lögreglan náði hinum á hlaupum í Vesturbæ Reykjavíkur tveimur dögum síðar. Fyrir tæpum tveimur vikum kom þýskur karlmaður á þrítugsaldri hingað til lands með vél frá Frankfurt. Samkvæmt upplýsingum lögreglu fundust fjögur kíló af amfetamíni á honum við hefðbundið eftirlit. Hann var þegar handtekinn og segir lögregla að hann hafi reynst mjög samvinnufús við yfirheyrslur. Sú samvinna leiddi til þess að tveimur dögum síðar var íslenskur karlmaður handtekinn í Vesturbæ Reykjavíkur. Lögregla hafði upp á honum en hann reyndi að komast undan á bíl. Þegar á eftirförina leið stöðvaði maðurinn bílinn og hljóp af stað með lögreglumenn á eftir sér. Þeir hlupu manninn uppi og handtóku hann. Þjóðverjinn var úrskurðaður í þriggja vikna gæsluvarðhald sem rennur út í næstu viku en Íslendingurinn var úrskurðaður í tveggja vikna gæsluvarðhald og rennur það út síðar í vikunni. Grunur leikur á að Þjóðverjinn hafi verið burðardýr en Íslendingurinn fjármagnað kaupin og ætlað að annast sölu efnanna og dreifingu hér á landi. Lögregla útilokar ekki að fleiri tengist málinu og verði handteknir á næstu dögum, en verst frekari frétta af rannsókn málsins. Ekki er vitað til þess að Þjóðverjinn hafi komið hingað til lands áður en Íslendingurinn hefur lítillega komið við sögu lögreglunnar áður.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×