Erlent

Aðgerðir harðna í Írak

MYND/AP
Aðgerðir uppreisnarmanna í Írak eru að harðna og árásum að fjölga á nýjan leik eftir þingkosningarnar í landinu. Tuttugu og fimm hið minnsta hafa beðið bana í árásum í morgun og á fjórða tug í gærkvöldi. Á sama tíma blasir mannekla við í Bandaríkjaher. Írakskir hermenn og lögreglumenn eru megin skotmark uppreisnarmannanna sem bæði gera árásir á bílalestir þeirra sem og bækistöðvar. Yfirvöld í Írak og hersetulið Bandaríkjanna verður þó líka ágengt í baráttunni gegn þessum hópum því í gær var tilkynnt að fyrrverandi hershöfðingi undir Saddam Hussein hefði verið tekinn höndum. Sá er sakaður um að hafa fjármagnað starfsemi nokkurra hryðjuverkamanna. Það er þó ekki aðeins utanaðkomandi vandi sem steðjar að herliði Bandaríkjanna því mannekla blasir við í hersetuliðinu þar sem stór hluti herliðsins hefur þegar lokið herskyldu sinni. Yfirvöld hafa gripið til margvíslegra aðgerða til að sporna við þessu, meðal annar hefur hermönnunum verið boðið þúsund dollara skattfrjáls kaupauki fyrir að framlengja veruna í Írak. Þá er nýliðum í bandaríska hernum nú boðin tæp milljón króna í kaupauka ef þeir skuldbinda sig til sex ára veru í hernum. Auk þessa hefur meira en tvö þúsund manns verið bætt í hóp þeirra sem hafa atvinnu af því að fá fólk til þess að ganga í herinn. Allt er þetta gert til þess að koma í veg fyrir að sú staða komi upp að Bandaríkjamenn lendi í vandræðum með að halda úti um 150 þúsund manna herliði í Írak í a.m.k. ár til viðbótar, eins og sérfræðingar telja nú að verði raunin.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×