Innlent

Aðferð veigameiri en verknaður

Aðferðin sem notuð er við nauðgun skiptir meira máli heldur en verknaðurinn sjálfur samkvæmt lögum. Þetta er niðurstaða kandídatsritgerðar í lögfræði við Háskóla Íslands. Þorbjörg S. Gunnlaugsdóttir flutti fyrirlestur um efni kandídatsritgerðar sinnar til embættisprófs í lögfræði í dag. Rigerðin heitir Nauðgun frá sjónarhorni kvennaréttar. Samkvæmt henni skilgreina lögin á þrennan hátt það sem almenningur kallar nauðgun. Þorbjörg segir að hún hafi skoðað í ritgerðinni hvernig lögin skilgreini nauðgun og hvort sá skilningur laganna fari saman við það sem fólk kalli í daglegu tali nauðgun. Niðurstaðan hafi verið sú að svo sé ekki. Að sögn Þorbjargar telst það einungis nauðgun ef gerandinn kemur fram vilja sínum gegn þolanda með ofbeldi eða hótun um ofbeldi, annars telst það misneyting. Þannig er gerður reginmunur á því hvort ofbeldi eða hótun er beitt eða viðkomandi komi fram vilja sínum við til dæmis manneskju sem sefur áfengissvefni. Þorbjörg segir þetta dæmi um hvernig skilningur laga og skilningur almennings fari ekki saman. Allir þekki umræðuna um útihátíðanauðganir um verslunarmannahelgi en í þeim tilvikum sem þolandi sé dauður af völdum drykkju og geti ekki spornað við verknaðinum teljist það misneyting hafi þolandinn sjálfur komið sér í það ástand. Jafnvel þótt samræði fari í þeim tilvikum fram gegn vilja þolanda teljist það brot ekki nauðgun í skilningi laganna. Þannig virðast lögin líta alvarlegri augum á ofbeldisárásina sem slíka fremur en árásina á kynfrelsi viðkomandi því refsingin er mismunandi. Þorbjörg segir að refsiramminn fyrir nauðgun sé eins til sextán ára fangelsi en fyrir misneytingu og aðra ólögmæta kynferðisnauðung sé hámarksrefsing sex ár þannig að það muni heilum tíu árum í refsiramma.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×