Erlent

12 hermenn drepnir í Írak

Uppreisnarmenn í Írak drápu seint í gærkvöldi tólf írakska hermenn nærri borginni Kirkuk í norðurhluta landsins. Uppreisnarmennirnir stöðvuðu bifreið hermannanna og skutu þá síðan til bana. Tveir hermenn náðu að flýja í nærliggjandi þorp. Flestir voru hermennirnir á leiðinni úr fríi í borginni Mósúl. Írakar ættu að geta tekið að öllu leyti sjálfir yfir vörnum lands síns innan átján mánaða. Þetta er mat innanríkisráðherra Íraks sem eins og fleiri telur þó algerlega út í hött að ætla að senda erlenda hermenn burt úr Írak nú þegar. Hann sagðist fastlega reikna með að árásir uppreisnarmanna hæfust fljótlega aftur en Írökum væri þó hægt og bítandi að takast að draga úr þeim mátt. Hvorki George Bush Bandaríkjaforseti né Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, hafa eftir kosningarnar á sunnudag viljað segja til um það hvenær herir landa þeirra hverfi burt frá Írak.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×