Menning

Þróar sinn eigin stíl

"Tai Chi hentar mér mjög vel þar sem líkamlegar og andlegar æfingar sameinast. Auk þess þarf ekkert að hafa fyrir þessu, manni nægir smá pláss og getur jafnvel gert þetta heima hjá sér," segir David Lynch, sviðstjóri alþjóðasviðs Rauða Krossins, sem hefur stundað Tai Chi í næstum 15 ár. David ferðast mjög mikið og gerir hann æfingarnar oft á hótelherberginu sínu, en hann sækir einnig tíma í Heilsudrekanum. "Ég hef alltaf verið mikill keppnismaður og keppti meðal annars í rúgbí og hljóp maraþon. Mér finnst ágætt að stunda íþrótt þar sem keppni skiptir engu máli, og líkar mér vel við þann hugsunarhátt," segir David og tekur það fram að hver og einn getur stundað Tai Chi á sínum hraða. "Ég er mikið fyrir slökun og hreyfi mig ekki eins hratt og ég gerði, þannig að ég er ofboðslega rólegur. Hins vegar er líka hægt að dansa Tai Chi, og það er einn strákur í tímum í Heilsudrekanum sem hefur áhuga á að læra það með sverði og spjóti," segir David. Mikilvægt segir hann að fólk læri grunninn vel en svo geti fólk mætt í tíma eins og því henti og þróað sinn eigin stíl. "Maður reynir heilmikið á sig og þó ég geri allt hægt og rólega kem ég rennandi sveittur út úr tíma," segir David og hlær. "Það er svo gott að finna vöðvana sem eru upptrekktir allan daginn slakna smátt og smátt og teygjast aðeins," segir David, sem sækir Tai Chi í Heilsudrekanum tvisvar í viku og stundar einnig æfingar heima. "Þegar mikið álag er í vinnunni virkar Tai Chi eins og mótefni við því," segir David, sem getur ekki hugsað sér lífið án þess.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×