Innlent

Impregilo vill rannsókn

Impregilo hefur farið fram á opinbera rannsókn vegna fréttar í DV. Þar er greint frá fyrrum starfsmönnum Impregilo sem sögðust hafa verið neyddir til að borga yfirmanni fyrirtækisins brennivín í skiptum fyrir yfirvinnu. "Að mati Impregilo felur fréttin í sér rangar sakargiftir á hendur yfirmanna Impregilo og félaginu sjálfu. Impregilo staðhæfir að fréttin sé röng og telur sig eiga lögvarinn rétt á að fram fari opinber rannsókn," segir í tilkynningu Impregilo. Þeir sem ábyrgð kunni að bera á fréttaflutningnum eigi að sæta refsi- og bótaábyrgð. Mikael Torfason, ritstjóri DV, segir blaðið standa við fréttina. Mennirnir sem rætt hafi verið við í frétt blaðsins standi við það sem þeir hafi sagt. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir hafi blaðamenn DV ekki fengið upplýsingar frá Impregilo. Áfram sé fjallað um málið. "Þar koma fram nýjar upplýsingar sem sýna hversu fáránleg þessi lögreglurannsókn er," segir Mikael.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×