Innlent

Tekið undir hugmyndir Georgs

"Ég fagna mjög sjónarmiðum Georgs um að íhuga leigu á skipi," segir Magnús Þór Hafsteinsson, þingmaður Frjálslynda flokksins. Georg Kr. Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar, sagði í viðtali við Fréttablaðið á laugardag að hagkvæmara væri að leigja nýtt varðskip í stað þess að kaupa það. Leigan gæti numið um 150 milljónum króna á ári en ætlað er að það kosti 3 milljarða að kaupa nýtt skip. Magnús léði sjálfur máls á þessari leið í viðtali við Fréttastofu Útvarps í fyrrasumar. Hann segir Norðmenn hafa farið þessa leið í langan tíma og meðal annars leigt fiskiskip til landhelgisgæslu. Telur hann mögulegt að leigja togara eða nótaskip í eigu íslenskra útgerða. "Við eigum mörg skip sem gætu nýst til gæslustarfa með smávægilegum breytingum." Guðmundur Hallvarðsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, tekur líka jákvætt í hugmyndina. "Ef það fæst skip sem hentar okkur tel ég eðlilegt að skoða málið vel. Við þekkjum þetta í kaupskipaflotanum þar sem skip eru leigð til lengri eða skemmri tíma."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×