Viðskipti innlent

Baugur kaupir aftur í Flugleiðum

Baugur, sem seldi rúmlega 8% hlut sinn í Flugleiðum í ágúst í fyrra, er aftur farinn að fjárfesta í félaginu og jók hlut sinn enn um 3% í morgun og er kominn upp í 6%. Verð á hlutabréfum í Flugleiðum hefur nær tvöfaldast á tólf mánuðum og þar af nemur hækkunin í þessum mánuði einum um 36%. Þegar Baugur seldi sinn hlut seldi Pálmi Haraldsson líka sinn hlut, sem var einnig um 8%, en Baugur og Pálmi áttu samleið sem fjárfestar í Flugleiðum. Í fyrrasumar virtist þeim öll sund lokuð til frekari kaupa í félaginu og er það talin líkleg ástæða þess að þeir seldu. Því koma kaup Baugs nú nokkuð á óvart og velta menn því nú fyrir sér hvort þau boði samstarf Jóns Ásgeirs í Baugi og Hannesar Smárasonar sem nú er orðinn starfandi stjórnarformaður félagsins. Seljandi bréfanna í morgun var Sjóvá-Almennar sem verið hefur einn stærsti hluthafi í Flugleiðum til þessa með rúmlega 9% en á nú 4,5%. Gengið í Flugleiðum hélt áfram að hækka í morgun eftir mikla hækkun í gær og í fyrradag sem kom í kjölfar tilkynningar um kaup félagsins á tíu nýjum Boeing-flugvélum sem leigðar verða út til flugfélaga víðsvegar um heiminn. Gengið er núna að nálgast fjórtán en um tíma árið 2002 fór það niður undir einn sem rakið var til áhrifa af hryðjuverkunum í Bandaríkjunum 11 september 2001. Á rúmum tveimur árum hefur gengið í Flugleiðum því nánast fjórtánfaldast á sama tíma og mörg flugfélög hafa átt mjög erfitt uppdráttar eftir hryðjuverkin, þónokkur farið á hausinn og önnur berjast í bökkum, m.a. nokkur stærstu flugfélög Bandaríkjanna og þar með heimsins.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×