Viðskipti innlent

Leigja vélarnar til Kína og víðar

Flugleiðir undirrituðu í dag samning við Boeing-verksmiðjurnar um kaup á tíu farþegaþotum af gerðinni 737-800 sem félagið ætlar að leigja áfram til flugfélaga í Kína og víðar. Heildarverðmæti samningsins nemur um fjörutíu milljörðum króna. Þetta er stærsti flugvélakaupsamningur sem Flugleiðir hafa gert, en í honum felst einnig kaupréttur á fimm flugvélum til viðbótar. Verði hann nýttur hljóðar heildarverðmæti samningsins upp á um 60 milljarða króna. Nýju Boeing-vélarnar verða afhentar Flugleiðum á næsta ári, en félagið mun í samstarfi við erlent flugvélaleigufyrirtæki leigja þær meðal annars til Kína, þar sem mikill vöxtur er í flugstarfsemi. Við undirritun samningsins kom fram að félagið greiðir um ellefu milljarða króna vegna kaupanna á þessu ári, sem KB banki fjármagnar, en ráðgjafi Flugleiða í viðskiptunum er breski bankinn HSBC. Hannes Smárason, stjórnarformaður Flugleiða, segir þetta lið í útrás félagsins og stórt skref í uppbyggingu þess, en nýtt dótturfélag hefur verið stofnað sem annast kaup, sölu og útleigu flugvéla. Hann segir að vélarnar hafi fengist á hagstæðu verði, talsvert undir markaðsvirði, og því nemi dulin eign félagsins í þeim, eins og hann orðar það, um sex og hálfum milljarði króna. Hann segir enn fremur að félagið hefji nú nýja starfsemi sem geti orðið mjög umsvifamikil, bæði hvað varðar leigutekjur og verðmætaaukningu. Þessi kaup geti því haft mikil áhrif fyrir félagið til lengri tíma litið.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×