Innlent

Lögreglurannsókn dauðsfalls í bið

Matthías Halldórsson aðstoðarlandlæknir sagði að í drögum að álitsgerð um málið væru talin nokkur atriði sem betur hefðu mátt fara við umönnun gamla mannsins, Ólafs Gunnarssonar, frá því að hann féll og fékk höfuðhögg á Hrafnistu og þar til að hann var fluttur á spítala um það bil níu klukkustundum síðar. Drögin hafa verið send aðstandendum gamla mannsins svo og viðkomandi heilbrigðisstarfsfólki til athugasemda. Matthías kvaðst ekki búast við neinum athugasemdum, enda væri fresturinn að renna út. Hann sagði enn fremur að gamli maðurinn hefði látist af heilablæðingu, sem orsakast hefði af fallinu, en í drögunum kemur fram það álit landlæknis að líklega hefði ekki verið hægt að bjarga lífi hans þótt hann hefði komist fyrr á sjúkrahús. Egill Stephensen sagði að málið hefði ekki verið tekið til eiginlegrar rannsóknar meðan það hefði verið í vinnslu hjá landlæknisembættinu. Að fenginni niðurstöðu þess yrði metið hvort ástæða væri til að ætla að eitthvað refsivert hefði átt sér stað.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×