Viðskipti innlent

Baugur verður stærsti hluthafinn

Múli ehf. og Vogabakki ehf. hafa selt 55% hlut sinn í Húsasmiðjunni. Múli og Vogabakki eru í eigu Árna Haukssonar forstjóra og Hallbjörns Karlssonar, framkvæmdastjóra verslanasviðs Húsasmiðjunnar. Kaupandi hlutarins er Eignarhaldsfélag Húsasmiðjunnar sem er að stórum hluta í eigu Baugs Group en Baugur hefur átt 45% Húsasmiðjunnar á móti Múla og Vogabakka. Á næstu dögum verður gengið frá endanlegum hluthafalista Eignarhaldsfélags Húsasmiðjunnar en gert er ráð fyrir að Baugur Group verði stærsti hluthafinn með 40-45% hlut. Landsbankinn annaðist ráðgjöf og fjármögnun vegna kaupanna. Kaupverð eignarhlutarins er trúnaðarmál. Kaupin eru gerð með fyrirvara um áreiðanleikakönnun og samþykki samkeppnisyfirvalda. Í kjölfar kaupanna munu Árni Hauksson og Hallbjörn Karlsson láta af störfum hjá Húsasmiðjunni. Gengið verður frá ráðningu nýs forstjóra á næstu vikum en þar til mun Árni stýra fyrirtækinu. Húsasmiðjan er stærsta fyrirtækið í sölu á byggingavörum hér á landi. Verslanir Húsasmiðjunnar eru 18 talsins en framkvæmdir standa yfir við byggingu nýrrar stórverslunar í Grafarholti sem verður stærsta byggingavöruverslun landsins undir einu þaki. Auk byggingarvöruverslana rekur Húsasmiðjan Blómaval, Ískraft og Áltak.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×