Viðskipti innlent

Tvöfalt hærra verð á Ikea-vörum

Íslendingar þurfa að borga 60% meira fyrir KLIPPAN-sófa frá IKEA en Bandaríkjamenn. Dæmi eru um að sama varan í IKEA kosti tvöfalt meira hér en í öðrum löndum.

Það er auðvelt að bera saman IKEA-vörur - þær eru alls staðar eins og verð eru gefin upp á vefsíðum verslana í hverju landi fyrir sig. Við skoðun á nokkrum vörum af handahófi kom í ljós sláandi munur.

KLIPPAN-leðursófi kostar tæplega 50 þúsund á Íslandi en aðeins rúmlega 31 þúsund í Bandaríkjunum. Munurinn er 60%.

Borðplata með vaski kostar tæpar 18 þúsund krónur hér á landi en tæpar níu þúsund krónur í Bandaríkjunum. Varan er 105% dýrari hér. 

SKYAR-gólflampi er á 3.490 krónur hér en kostar rétt undir 1900 krónum vestanhafs. Verðið er 86% hærra á Íslandi. 

GUSTAV-skrifborð kostar 35 þúsund krónur á Íslandi, aðeins tæpar 19 þúsund krónur í Bandaríkjunum og 23 þúsund í Þýskalandi. Skrifborðið er því 86% dýrara á Íslandi.

Spurður hvort IKEA á Íslandi leggi meira á vörurnar en gert er í öðrum löndum segir Jóhannes R. Jóhannesson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins hér á landi, að álagningin hér sé svipuð og annars staðar. Skýringarnar á þessum verðmun hafa íslenskir neytendur heyrt áður: Smæð markaðarins gerir möguleikana á magninnkaupum mun minni en í hinum stærri löndum. Að sögn Jóhannesar gerir lega landsins það líka að verkum að dýrt er að flytja vörurnar til Íslands. Og síðast en ekki síst togar hinn frægi virðisaukaskattur verðið svona upp.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×