Innlent

Óska hjálpar íslensku lögreglunnar

Grunur leikur á að fleiri Íslendingar en þeir tveir sem nú sitja í gæsluvarðhaldi í Þýskalandi tengist fíkniefnamáli sem kom upp eftir leit í Hauki ÍS þann sjötta janúar síðastliðinn. Þá fundust þrjú og hálft kíló af kókaíni og annað eins af hassi í klefa tveggja skipverjanna. Beiðni um hjálp íslensku lögreglunnar við rannsókn málsins er kominn af stað í þýska kerfinu. 51 árs og 38 ára Íslendingar hafa verið í haldi lögreglunnar í Þýskalandi síðan leitin í skipinu var gerð en þeir voru úrskurðaðir í sex mánaða gæsluvarðhald. Dütsch segist ekkert geta sagt til um hvenær rannsókn málsins ljúki og því ekki hvenær það fari fyrir þarlendra dómstóla. Rannsaka þurfi málið bæði í Þýskalandi og á Íslandi. Hann segir grun leika á að fleiri menn en þeir, sem voru með fíkniefnin og nú eru í haldi, hafi komið að innflutningi eða fjármögnun fíkniefnanna. Efnin séu dýr en söluverðmæti þeirra á Íslandi margfalt meira. Aðrir en Íslendingarnir tveir hafa ekki verið handteknir vegna málsins. Þær upplýsingar fengust frá dómsmálaráðuneytinu að beiðni um hjálp íslenskra lögregluyfirvalda hefðu ekki borist ráðuneytinu. Dütsch segir beiðnina fara frá þýsku lögreglunni til ríkissaksóknarans þaðan í viðkomandi ráðuneyti sem sendir beiðnina til Íslands. En svokallaðar réttarbeiðnir, þar sem erlend ríki óska aðstoðar íslenska ríkisins við rannsókn mála, fara í gegnum dómsmálaráðuneytið. Með réttarbeiðni fer af stað lögreglurannsókn. Fram að þessu hefur þýska lögreglan verið í óformlegu sambandi við fíkniefnadeildina í Reykjavík.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×