Innlent

Gæsluvarðhald framlengt

Gæsluvarðhald yfir Ungverja, sem tekinn var með tæpt kíló af kókaíni innvortis á Keflavíkurflugvelli í lok desember, hefur verið framlengt um sex vikur. Maðurinn, sem er tæplega þrítugur, var með mesta magn fíkniefna innvortis sem vitað er til að flutt hafi verið til Íslands. Hafði hann gleypt efnin, sem pakkað hafði verið í rúmlega áttatíu hylki, á Kanaríeyjum þar sem hann er búsettur. Frá Kanaríeyjum flaug maðurinn til Madrídar, þaðan til Parísar og loks til Íslands. Á ferð sinni tókst honum ekki að halda fíkniefnapakkningunum innvortis og skilaði um þriðja hluta efnanna út úr líkamanum á leiðinni. Hann lét það hins vegar ekki á sig fá heldur skolaði af hylkjunum og gleypti aftur. Grunur tollvarða um að maðurinn væri með fíkniefni innvortis var staðfestur með röntgenskoðun. Nígeríumanni sem talið var að tengdist málinu var sleppt úr gæsluvarðhaldi í vikunni og fór hann úr landi samdægurs.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×