Menning

Langar í skvísubíl

"Ég eignaðist Pólóinn minn 18 ára og hef átt hann síðan," segir Ardís Ólöf Víkingsdóttir söngnemi, sem er þjóðinni örugglega í fersku minni frá því í Idolinu í fyrra. "Ég átti akkúrat innistæðu á banka fyrir litlum sætum bíl og sá þennan auglýstan. Ég dreif mig í bæinn frá Blönduósi og leist svona vel á bílinn að ég keypti hann í hvelli. Konan sem átti bílinn hafði verið veik þannig að hann stóð meira og minna í bílskúrnum og var mjög lítið keyrður." Ardís er alsæl með bíllinn sinn sem hún segir gott að keyra og bila lítið. "Ég hef verið á ferðinni á honum milli Blönduóss og Reykjavíkur síðan ég keypti hann og hann hefur aldrei klikkað." Það stendur ekkert til hjá Ardísi að skipta um bíl í augnablikinu, en hún á sér auðvitað draumabíl. "Ef ég ætti nóga peninga myndi ég kaupa mér flottan BMW, svona ekta skvísubíl," segir hún hlæjandi. Ardís var að klára sjöunda stig í söng í Nýja söngskólanum, en eftir að hún lýkur prófi eftir ár langar hana í framhaldsnám til London. "Það er ekki eftir neinu að bíða," segir hún. "Ég er orðin 23 ára og þeir vilja frekar yngra fólk en eldra svo því fyrr sem ég fer því betra. Draumurinn er að komast inn í Guildhall School of Music and Drama, mig hefur alltaf langað í þann skóla. Ég er ekki viss hvort ég fer í óperusöng eða hvort ég fer í söngleikjadeildina sem er líka mjög spennandi." Ardís hefur aldrei komið til London, en segist aðspurð ekki myndu hafa á móti því að vera söngstjarna á West End. Nú er Idolið í algleymingi og Ardís fer ekki varhluta af spenningnum. "Maður fær alls konar minningar upp í höfuðið, gæsahúð og í magann og allan pakkann. Mér líst vel á alla þessa krakka en það eru þarna þrír sem ég hef sérstaka trú á og held að muni ná langt."





Fleiri fréttir

Sjá meira


×