Innlent

Óskar eftir skýringum sýslumanns

Mynd/Vísir
Bogi Nilsson ríkissaksóknari segir að óskað hafi verið eftir skýringum frá sýslumanninum í Vestmannaeyjum vegna frétta um að kæra fyrir líkamsárás hafi verið fyrnd þegar loks var ákært í málinu. Ríkissaksóknari hefur lögum samkvæmt eftirlit með ákæruvaldinu. Komi fram ábendingar eða athugasemdir um að menn hafi ekki farið vel með vald sitt gerir hann athugasemdir við starf viðkomandi lögreglustjóra. Hann hefur hins vegar ekki rétt til að áminna menn í slíkum tilfellum. Karl Gauti Hjaltason, sýslumaður í Vestmannaeyjum, sendi frá sér yfirlýsingu í vikunni vegna Hildar Sigurðardóttur, konu úr Vestmanneyjum sem bjó við ofbeldi af hálfu eiginmanns síns og sagði sögu sína á Stöð 2. Hann sagði að lögreglan hefði oft haft afskipti af málum Hildar og fyrrverandi eiginmanns hennar og gert allt sem hægt var til að tryggja öryggi hennar. Farið hafi verið fram á nálgunarbann á manninn snemma árs 2003, sem gilti í fimm mánuði. Maðurinn braut hins vegar nálgunarbannið og var ákærður og dæmdur fyrir það ásamt nokkrum öðrum brotum. Þá kom í ljós að ein kæran fyrir líkamsárás var fyrnd. Bogi Nilsson segir að ef fram komi ábendingar eða kvartanir í tilfellum sem þessum sé málið kannað en það hafi ekki verið í þessu tilfelli. Þegar embættinu hafi borist upplýsingar um málið hafi saksóknari frá embættinu rætt við sýslumanninn og leitað skýringa.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×