Innlent

Börkur í sjö og hálfs árs fangelsi

Börkur Birgisson, 25 ára Hafnfirðingur, var dæmdur í sjö og hálfs árs fangelsi í Héraðsdómi Reykjaness í gær fyrir tilraun til manndráps og fjölda líkamsárása. Börkur réðst á annan mann með öxi á veitingastaðnum A. Hansen í fyrra og veitt honum sár. Hann hafði auk þess rifbeinsbrotið tengdaföður sinn og ráðist á fjóra aðra karlmenn. Þá var Börkur dæmdur fyrir ólöglegan vopnaburð og umferðalagabrot. Að mati Héraðsdóms Reykjaness átti Börkur sér ekki málsbætur og árás hans með öxinni sérstaklega ófyrirleitin þar sem tilviljun ein réð því að fórnarlambið komst lífs af. Þá segir að önnur brot hafi verið fólskuleg, yfirleitt án aðdraganda og beinst að höfði eða andliti þeirra sem fyrir þeim urðu. Þetta er í þriðja skipti sem Börkur er dæmdur í fangelsi fyrir ofbeldisbrot eftir átján ára aldur. Auk fangelsisvistar var Börkur dæmdur til að greiða fórnarlömbum sínum 557 þúsund krónur í bætur og allan sakarkostnað. Til frádráttar frá refsingu kemur gæsluvarðhaldsvist frá 2. september.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×