Innlent

Á sér langa afbrotasögu

Héraðsdómur Reykjaness dæmdi í dag 25 ára Hafnfirðing, Börk Birgisson í sjö og hálfs árs fangelsi, m.a. fyrir að slá annan mann ítrekað í höfuðið með öxi. Hann á sér langa afbrotasögu. Í lok ágústmánaðar síðasta sumar lagði Börkur ítrekað til annars manns með öxi á veitingastaðnum A.Hansen í Hafnarfirði með þeim afleiðingum að maðurinn hlaut alvarlega áverka á höfði. Í kjölfarið sló hann svo til annars manns með öxinni, með þeim afleiðingum að hann hlaut skurð við eyra. Í byrjun sama árs sló Börkur mann í andlitið með flösku á sama stað. Flaskan brotnaði við höggið og maðurinn hlaut skurð í andliti. Í kjölfarið barði hann síðan manninn ítrekað með hnefunum. Afbrotasaga Barkar endar ekki þar því að hann var einnig sakfelldur fyrir fjórar aðrar líkamsárásir gegn karlmönnum og fyrir að hafa barið konu í andlitið. Þá var hann einnig dæmdur fyrir að hafa ítrekað brotið umferðarlög, meðal annars með því að aka yfir gatnamót á rauðu ljósi. Þá var hann einnig sakfelldur fyrir brot á vopnalögum, en hann var með óskráða haglabyssu í fórum sínum. Dómurinn segir að ekki sé hægt að líta fram hjá því að líkamsárásir Barkar hafi allar nema ein beinst að höfði fórnarlambanna og árásirnar hafi allar verið tilefnislausar eða að minnsta kosti ekki í neinu samræmi við það sem á undan hafi gengið. Dómurinn er óskilorðsbundinn og þarf sakborningur að greiða allan sakarkostnað sem og vel á sjötta hundrað þúsund krónur í skaðabætur til handa fórnarlömbum hans.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×