Innlent

Nöfnin fari hugsanlega á Netið

Samtök lögmanna í Noregi og Danmörku birta á Netinu nöfn þeirra lögmanna sem verða uppvísir að afglöpum í starfi. Slíkt er ekki gert hér á landi en formaður Lögmannafélagsins útilokar ekki að þessu fordæmi verði fylgt. Úrskurðarnefnd lögmanna í Danmörku birti nýlega í fyrsta sinn nafn lögmanns á heimasíðu sinni sem hefur verið fundinn sekur um afglöp í starfi og hlotið sekt fyrir. Í dönskum fjölmiðlum er sagt að þetta sé gert til að almenningur hafi tækifæri til að sneiða hjá slíkum lögmönnum. Norska lögmannafélagið hefur gert þetta um nokkurt skeið, en hvernig ætli málum sé háttað hér á landi? Gestur Jónsson, fomaður úrskurðarnefndar lögmanna, segir að nafnleynd sé meginreglan en heimilt sé að víkja frá henni í sérstökum tilvikum. Hann segir að frá því að úrskurðarnefndin hafi tekið til starfa sumarið 1999 hafi þeirri heimild aldrei verið beitt. Gestur segir erfitt að svara þeirri spurningu hvernig almenningur eigi að geta varast þá lögmenn sem ekki standa sig í stykkinu ef slíkar upplýsingar eru hvergi aðgengilegar. Menn skapi sér orðspor og með þeim hætti velji fólk sér þá sem það getur treyst. Gunnar Jónsson, formaður Lögmannafélags Íslands, segir að þetta hafi ekki verið rætt í stjórn félagsins. Hann segir sjálfur að það truflaði hann ekki þótt nöfn þeirra lögmanna sem gerðust sekir um afglöp í starfi yrðu birt á Netinu. Slíkt auki aðhald með lögmönnum og segir hann öruggt að þessu verði velt upp hér á landi ef þetta festist í sessi á meðal annarra Norðurlandaþjóða enda fylgi íslenskir lögmenn oft góðu fordæmi norrænna starfsbræðra sinna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×