Innlent

Ríkissaksóknari vill frekari gögn

Að ósk ríkissaksóknara er sýslumannsembættið á Seyðisfirði að afla viðbótargagna vegna banaslyssins á virkjunarsvæðinu við Kárahnjúka aðfaranótt 15. mars í fyrra. Að þeim gögnum fengnum mun ríkissaksóknari taka ákvörðun um hvort ákært verður í málinu. Sýslumannsembættið á Seyðisfirði fer með rannsókn málsins og sendi embættið ríkissaksóknara rannsóknargögn 5. október síðastliðinn. "Í þeim gögnum bentum við á að ákveðnir þættir hefðu ekki verið rannsakaðir. Hefur ríkissaksóknari nú óskað eftir að við öflum frekari gagna en hvenær þeirri vinnu lýkur get ég ekki sagt til um," sagði Helgi Jensson, fulltrúi sýslumannsins á Seyðisfirði. Hálfþrítugur Íslendingur lést í slysinu þegar hann varð fyrir grjóti sem féll úr Fremri-Kárahnjúk. Vinna á slysstað var bönnuð um tíma eftir slysið og í kjölfarið var öryggi starfsmanna aukið. Viku fyrir banaslysið höfðu eftirlitsaðilar Landsvirkjunar sent Impregilo og undirverktökum skriflegar athugasemdir þar sem varað var við hættu á grjóthruni á vinnusvæðinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×