Innlent

Rannsókn enn í höndum Þjóðverja

Rannsókn á fíkniefnafundinum um borð í togaranum Hauki í Bremerhafen á fimmtudag er enn algerlega í höndum þýsku lögreglunnar og hefur enginn verið yfirheyrður vegna málsins hér á landi. Þegar togarinn kom til Hafnarfjarðar vakti athygli að nokkrir lögreglumenn fóru um borð ásamt tollurum, en að sögn lögreglunnar í Hafnarfirði var það einungis til að fullnægja reglum Shengen-samkomulagsins og tengdist smyglmálinu ekki á nokkurn hátt. Að sögn Ásgeirs Kalrssonar, yfirmanns fíkniefnadeildar lögreglunnar í Reykjavík, hefur þýska lögreglan aðeins haft samband en ekki óskað eftir aðgerðum af hálfu íslensku lögreglunnar enn sem komið er. Enn er alveg á huldu hvort mennirnir öfluðu sér fíkniefnanna sjálfir í Þýskalandi eða hvort þeir voru aðeins burðardýr til viðtakenda hér á landi. Í vistarverum Íslendinganna tveggja um borð í togaranum fundust þrjú og hálft kíló af kókaíni og annað eins af hassi. Því verður að telja líklegt að einhverjir viðtakendur eða væntanlegir dreifendur hér á landi hafi vitað hvað var í vændum. Af rannsókn málsins sem upp kom daginn fyrir gamlársdag, þegar hátt í kíló fannst innvortis í ungverskum ferðamanni í Leifsstöð, sem leiddi svo til handtöku Nígeríumanns, er það að frétta að enginn Íslendingur hefur enn verið yfirheyrður með stöðu grunaðs manns og enginn Íslendingur hefur verið handtekinn. Almennt telur Ásgeir Karlsson ólíklegt að erlendir ferðamenn flytji svo mikið magn til landsins af dýru efni án þess að hafa einhver sambönd hér til þess að koma því í verð.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×