Viðskipti innlent

Meðal heimsleiðtoga

Björgólfi Thor Björgólfssyni, athafnamanni og stjórnarformanni Burðaráss og Actavis, hefur verið boðið að taka þátt í verkefni á vegum World Economic Forum. Hann er einn af 237 einstaklingum sem kallaðir eru til þátttöku í verkefninu. Meðal annarra sem taka þátt í verkefninu eru Sergei Brin og Larry Page, stofnendur Google; leikkonan Julia Ormond; Viktoría Svíaprinsessa; Friðrik Danaprins; Mikael Saakashvili forseti Georgíu; og Björn Lomborg tölfræðingur. Leiðtogarnir sem tilnefndir eru i þennan hóp eru undir fertugu og hafa náð frama á ýmsum sviðum, svo sem í stjórnmálum, athafnalífi, menningu og vísindum. Fyrsti fundur hópsins verður ráðstefna í Sviss í lok júní. Til stendur að tilnefna um tvö hundruð unga leiðtoga í þennan hóp árlega fram til ársins 2009 og munu þeir starfa í fimm ár innan samtakanna. Í frétt frá World Economic Forum kemur fram að markmið hópsins sé að nýta krafta sína og þekkingu til þess að stuðla að betri framtíð í heiminum. Björgólfur Thor er þó ekki eini Íslendingurinn í þessum hópi því Jon Tetzchner, stofnandi Opera Software í Noregi er einnig í hópnum. Hann ólst upp á Íslandi og útskrifaðist frá Menntaskólanum í Reykjavík.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×