Innlent

Í gæsluvarðhaldi í Þýskalandi

Tveir íslenskir sjómenn hafa verið úrskurðaðir í að minnsta kosti sex mánaða gæsluvarðhald eftir að lögreglan í Bremerhaven lagði hald á þrjú og hálft kíló af kókaíni og annað eins af hassi í fórum þeirra. Þeir hafa neitað allri samvinnu við lögreglu. Mennirnir tveir voru í áhöfn Hauks ÍS sem gerður er út frá Torfnesi og var í sinni fyrstu ferð fyrir útgerðina. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni í Bremerhaven höfðu þeir skipverja undir eftirliti eftir að símhringing barst með nafnlausri ábendingu. Tuttugu lögreglumenn með fíkniefnahunda sér til aðstoðar fóru um borð í Hauk ÍS og fundu þeir fíkniefnin í vistarverunum, í töskum í eigu skipverjanna tveggja. Þeir eru samkvæmt upplýsingum tollgæsluyfirvalda í Hamborg 38 ára og 51 árs. Rannsókn stendur enn yfir en búast má við að þeim verði birt ákæra að henni lokinni. Talsmaður þýsku tollgæslunnar sagði meðal annars verið að kanna hver seldi þeim fíkniefnin en talið væri að þau hefðu verið keypt í Þýskalandi. Skipverjunum íslensku hefði verið útveguð lögfræðiaðstoð en þeir neitað öllu samstarfi. Verði mennirnir tveir fundnir sekir geta þeir búist við allt að fimmtán ára fangelsi í Þýskalandi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×