Innlent

Með kíló af kókaíni innvortis

Tæplega þrítugur Ungverji hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald eftir að röntgenmyndataka leiddi í ljós að áttatíu fíkniefnahylki voru í meltingarvegi hans við komuna til landsins frá París þann 30. desember síðastliðinn.  Eftir að hylkin voru gengin niður af honum kom í ljós að þau innihéldu tæpt kíló af mjög hreinu kókaíni sem hefði verið hægt að þrefalda, jafnvel fjórfalda, að magni og hefði andvirði efnisins í smásölu þá numið um fjörutíu milljónum króna. Þetta er langmesta magn sem vitað er til að reynt hafi verið að smygla hingað til lands innvortis. Fyrstu hylkin sem gengu niður af manninum reyndust ekki beint traustvekjandi og um tíma óttuðust læknar að eitthvert hylkjanna sem eftir var kynni að springa. Svo fór þó ekki. Auk þess hafði reynt sérstaklega mikið á nokkur hylki sem gengu niður af manninum á leiðinni en hann gleypti á ný. Fíkniefnadeild lögreglunnar í Reykjavík tók við málinu og við rannsókn hennar var tæplega þrítugur Nígeríumaður handtekinn hér á landi á fimmtudag. Hefur hann líka verið úrskurðaður í gæsluvarðhald. Enginn Íslendingur hefur verið handtekinn vegna rannsóknar málsins svo fréttastofu sé kunnugt um.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×