Innlent

Lögreglufréttir

Kona flutt á sjúkrahús Klippa þurfti farþega úr bíl á Akureyri á hádegi í gær. Hann var fluttur á slysadeild. Samkvæmt vakthafandi lækni var hann lagður inn en er ekki alvarlega slasaður. Ökumaður fólksbíls sem hann sat í beygði í veg fyrir annan þegar hann ók af Þórunnarstræti að innkeyrslu sjúkrahússins. Ökumenn sluppu ómeiddir. Innbrot á Akureyri Brotist var inn í Vídeóborg við Hólabraut á Akureyri í fyrrinótt. Skiptimynt og annað smálegt hvarf. Lögreglan á Akureyri er með málið í rannsókn. Upp úr rásum götunnar Ekki urðu slys á fólki þegar tveir fólksbílar lentu í árekstri á Fossheiði á Selfossi. Bílarnir eru stórskemmdir. Annar þeirra rann upp úr klakaförum á Fossheiði og lenti framan á hinum sem kom úr gagnstæðri átt. Atvikið varð klukkan tuttugu mínútur í tólf í gær. Viðbúnaðarstigi aflýst Allt er komið í eðlilegt horf á Patreksfirði. Götur bæjarins hafa verið mokaðar sem og milli byggða. Öllu viðbúnaðarstigi var aflýst í gær, að sögn lögreglunnar á staðnum. Umferðaróhapp á Húsavík Minniháttar árekstur tveggja fólksbíla varð á mótum Garðarsbrautar og Þverholts á Húsavík klukkan rúmlega fimm á miðvikudag. Engin slys urðu á fólki. Mikill snjór er í bænum og háir ruðningar sem byrgir ökumönnum sýn. Lögreglan á Húsavík segir orsök árekstursins ókunna. Bílarnir séu eitthvað tjónaðir. Bíll út af við Mánarbakka Bíll rann út af við Mánarbakka norðan Húsavíkur. Ökumann sakaði ekki. Hann var einn í bílnum og kallaði til björgunarsveitina Garðar sem dró bílinn aftur upp á veg á öflugum björgunarsveitarbíl með spili. Atvikið varð rétt upp úr klukkan sjö á miðvikudagskvöldið. Valt við Bláa lónið Ökumaður missti stjórn á bifreið sem valt á Grindavíkurvegi til móts við Bláa lónið klukkan eitt í gærdag. Hann meiddist lítillega og var fluttur á slysadeild til skoðunar. Bifreiðin var færð í burtu með kranabifreið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×