Innlent

Rúmlega 1600 fíkniefnamál í fyrra

Rúmlega 16 hundruð fíkniefnamál komu til kasta lögreglu á síðasta ári. Rúmur helmingur fíkniefnamála kemur upp um helgi og flest koma upp yfir sumarmánuðina. Fíkniefnabrot í fyrra voru 1621 en árið 2003 voru þau 1385. Þeim fjölgaði því um 17 prósent á milli ára. Í skýrslum lögreglu skortir hins vegar upplýsingar um hversu margar klukkustundir liggiað baki þessari vinnu líkt og upplýst er í sambærilegum skýrslum margra nágrannaþjóða. Það er þess vegna í raun ekkert hægt að fullyrða hvort fíkniefnabrotum hafi í raun fjölgað eða hvort lögregla hafi ráðstafað hlutfallslega meiri mannafla og tíma í þennan málaflokk en áður. Tölur lögreglunnar sýna hins vegar að flest fíkniefnabrot varða vörslu og neyslu fíkniefna. 1161 maður var kærður fyrir fíkniefnabrot í fyrra og voru rúmlega 1000 þeirra eða 87 prósent karlar. 94 prósent kærðra voru íslenskir ríkisborgarar. Líkt og fyrri ár komu flest fíkniefnamálin upp yfir sumarmánuðina. Þannig kom tæplega fjórðungur allra mála síðasta árs upp í júlí og ágúst. Í þessum brotum var hald lagt á 16 kíló af amfetamíni en 3 kíló árið áður og fimm kíló af kókaíni á móti einu kílói árið 2003. Hins vegar var lagt hald á minna af hassi; í fyrra var lagt hald á 37 kíló en árið áður voru hasskílóin 55.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×