Innlent

Rýmt á Tálknafirði - Snjóflóð féll

Tíu innstu íbúðarhúsin í Tálknafirði, neðan svonefnds Geitárhorns, voru rýmd í kvöld eftir að Veðurstofa Íslands gaf út tilkynningu um hættustig vegna snjóflóðahættu.  Snjóflóð féll á svæðinu fyrr í kvöld en olli ekki tjóni á mönnum eða mannvirkjum. Í tilkynningu frá almannavarnarnefnd segir að 19 íbúar hafi þurft að yfirgefa heimili sín. Þeir fóru allir til vina og vandamanna annars staðar í bænum.  Ekki verða teknar frekari ákvarðanir um rýmingu að svo stöddu. Vakt verður hjá lögreglu og snjóeftirliti áfram í kvöld og nótt. Sá hluti Strandgötu á Tálknafirði sem er neðan rýmingarsvæðsins verður lokaður fyrir allri umferð í nótt. Almannavarnanefnd mun koma saman kl. 07.00 í fyrramálið og meta þá hvort fyrirmælum um rýmingu verði aflétt og Strandgata opnuð.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×