Lífið

Þegar jólaskrautið fer í geymsluna

Nú þegar jólin eru á enda og jólaskraut ratar aftur ofan í kassa og kirnur verður eftir ákveðið tómarúm í híbýlum fólks. Það er hins vegar engin ástæða til fyllast þunglyndi því nú er einmitt tíminn til að endurskipuleggja. Er kannski kristalsskálin frá Stínu frænku, sem vék fyrir fjárhúsinu í hillunni í desember, ekki þess virði að setja hana upp aftur? Er hægt að halda í jólaseríurnar en gera þær meira svona heilsárs? Aðalheiður Gylfadóttir, útstillingahönnuður hjá Debenhams, segir janúar fínan tíma til að breyta aðeins til á heimilinu en halda samt í þessa kósí stemningu sem við elskum í skammdeginu. "Ég breyti yfirleitt einhverju heima á þessum tíma. Suma hluti set ég í geymsluna og svo fer eftir tilfinningagildi hlutanna hvort þeir fara alla leið. Sumt er þess eðlis að það lendir í "geyma-fyrst-og-henda-svo"-flokknum, en annað geymi ég von úr viti.," segir hún hlæjandi. "Það er heldur engin ástæða til að taka niður jólaseríur, sérstaklega ekki þessar sem eru í glervösum. Það er hinsvegar tilvalið að breyta til og setja litaðan sand, steina eða gróft salt í vasana með seríunum." . Aðalheiður segir að nú sé líka tímabært að skipuleggja breytingar sem koma ekki til framkvæmda fyrr en í vor. "Það er sniðugt að byrja að sketsa, og jafnvel mála einn vegg og búa til eitthvert þema í kringum hann. Sandlitaður veggur og náttúrulegir hlutir í stíl, kuðungar, skeljar og falleg kerti geta komið ofsalega vel út." Aðalheiður segist sjálf hafa farið allan hringinn í innanhússskreytingunum, allt frá miklu skrauti og niður í minímalismann. "Nú er ég heilluð af nýlendustílnum, svona hippakósí stemningu, en þó ekki of mikið af hlutum. Gróft gólf, flott motta, ruggustóll og feitt kerti, það er málið."





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.