Innlent

Eldur í Mosfellsbæ

Eldur kviknaði í íbúðarhúsnæði í Krókabyggð 14 í Mosfellsbæ í gær. Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins var gert viðvart klukkan 16.46 og sendu allar stöðvar lið á staðinn. Mikill eldur var í herbergi á efri hæðinni en húsið er tvílyft parhús. Tveir íbúar voru úti þegar slökkvilið bar að en læknir slökkviliðs sendi þá á slysadeild á Landspítala - háskólasjúkrahúsi til athugunar. Hélt hann að íbúarnir, tveir ungir piltar, væru með snert af reykeitrun en það reyndist ekki alvarlegt. Vel tókst að slökkva eldinn og lauk slökkvistarfi um hálfsexleytið. Einn bíll var þó eftir á vettvangi og var húsið vaktað eitthvað fram eftir kvöldi. Óvíst er um eldsupptök og er málið í rannsókn hjá slökkviliðinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×