Viðskipti innlent

Einungis tvö félög hafa hækkað

Einungis tvö af fimmtán félögum í úrvalsvísitölu Kauphallarinnar hafa hækkað í verði á fjórða ársfjórðungi en þrettán hafa lækkað. Er þar miðað við lokagengi á markaði í gær. Þau félög sem hafa hækkað eru Opin kerfi Group (5,1%) og Atorka (3,9%). Félögin sem mest hafa lækkað eru hins vegar Actavis (-24,4%), Burðarás (-21,9%) og Samherji (-17,8%). Frá þessu greinir í hálffimm fréttum KB banka. Þann 10. desember síðastliðinn birti Kauphöllin lista yfir þau félög sem koma til með að mynda úrvalsvísitöluna frá og með 1. janúar til 30. júní á næsta ári. Sú breyting á samsetningu vísitölunnar sem mun eiga sér stað um áramótin er að Opin kerfi og Grandi detta út en Flugleiðir og Kögun koma inn í þeirra stað. Þessi tvö félög hafa bæði hækkað það sem af er fjórða ársfjórðungi, Kögun um 8,8% og Flugleiðir um 5,6%. Þrátt fyrir að flest félögin í úrvalsvísitölunni hafi lækkað á síðasta fjórðungi ársins hefur árið í heild þó verið gott því einungis tvö félög í úrvalsvísitölunni hafa lækkað á árinu, Actavis um 8,6% og Medcare Flaga um 4,8%.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×