Innlent

Þjófurinn skilaði veskinu

Veski sem stolið var af konu í Bónusversluninni í Hafnarfirði fyrir jól og innihélt meðal annars mikilvæg læknisgögn um ungan son hennar er komið í leitirnar. 35 ára kona sem stal því kom á lögreglustöðina í Hafnarfirði í gærkvöldi og skilaði því ásamt kortum, skilríkjum, síma og öðrum verðmætum sem voru í veskinu. Sem kunnugt er reyndi lögreglan í Hafnarfirði að höfða til samvisku þjófsins fyrir jól enda voru skjölin nauðsynleg fyrir drenginn vegna væntanlegrar læknismeðferðar í Boston í Bandaríkjunum. Skjölin bárust í tæka tíð þar sem mæðginin eru ekki farin þangað og sparar þetta móðurinni bæði fyrirhöfn og fjármuni. Þjófurinn sagðist hafa fengið samviskubit og loks ákveðið að gefa sig fram. Mál hennar verður nú sent ákæruvaldinu til ákvörðunar en að líkindum verður það talið til mildunar að hún sá að sér og skilaði þýfinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×