Innlent

Fischer vonsvikinn með hægaganginn

Sæmundur Pálsson segist reyna að stappa stálinu í vin sinn, Bobby Fischer, sem sé vonsvikinn með hve hægt mál hans gangi í Japan. Útséð virðist um að Fischer komist til Íslands fyrir áramót.  Lögfræðingur Bobbys Fischers í Japan hefur ekki enn fengið formleg viðbrögð frá japanska utanríkisráðuneytinu við þeirri beiðni um að Fischer verði sleppt úr haldi og leyft að fara til Íslands þar sem hann hefur fengið dvalarleyfi. Auk þess hafa fulltrúar ráðuneytsins ekki enn sett sig í samband við sendiráð Íslands í Japan. Litlar líkur eru á að virkileg hreyfing komist á málið fyrr en á nýju ári þar sem áramótahátíðahald Japana fer nú í hönd og opinberar skrifstofur víða lokaðar þar til um miðja næstu viku. Sæmundur Pálsson, vinur Fishers, segir hann hafa hringt í sig daglega upp á síðkastið, stundum fimm sinnum á dag. Hann segir þokkalegt hljóð í honum en hann sé verulega vonsvikinn með hversu treglega málið gangi. Sæmundur hefur í nokkra daga beðið eftir grænu ljósi til að halda til Japans og sækja vin sinn en hann segir ljóst að ekkert gerist fyrir áramót. Hann segir Fischer talsvert niðri fyrir en hann spjalli við hann og reyni að stappa í hann stálinu og halda honum rólegum. Stuðningsmenn Fischers ætla að funda á morgun og ræða stöðuna í máli bandaríska skáksnillingsins en fátt bendir til þess að hann verði leystur úr haldi japanska yfirvalda á næstu dögum. Sæmundur segist engu að síður þokkalega bjartsýnnn á að hægt verði að sækja Fischer fljótlega eftir áramót.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×